Forsíða
Grænlandsferð
Sómajulla
Sómi 599 sport
Sómi 599 Fishing
Sómi 694
Sómi 695
Sómi 795
Sómi 865
Sómi 800
Sómi 870
Sómi 955
Sómi 960
Sómi 990
Sómi 1200
Sómi 1500
Um fyrirtækið
Þjónusta
Til sölu
Vörur
Myndir

Grænlandsferðin

Fyrir ári síðan fór ég ásamt vinum mínum í nokkurskonar karla ferð ( gæti verið ævintýraferð líka ) til Kummiut á austurströnd Grænlands að sækja heim vin minn Sigga P eða Ísmanninn eins og hann er oftast kallaður.

Vorum við þar nokkrir karlar í heimsókn í nokkra daga og ferðuðumst um á bát Ísmannsins. Við enduðum í Tasilaq þar sem eru vatnssalerni og sturtur á Hótel Tasilaq. Það þótti mikill lúxus í þeirri ferð að komast á venjulegt klósett því það gekk ekki nægilega vel að fara á fötuna sem er í Kummiut, en í þessari ferð þá ákváðum við það, ég og Ísmaðurinn að á næsta ári þá myndum við hittast á veiðislóðunum norðurfrá, eins og Siggi kallar það. Túrinn var handsalaður og vinna hófst við að byggja bát í verkefnið, sem var Sómi 960. Velja þurfti ferðafélaga, sem var ekki erfitt, það voru bara mínir bestu vinir sem hafa áður farið í ævintýraferðir með mér (Óskar Guðmundsson) þ.e. Valdi Long og Ásbjörn Helgi Árnason.

Báturinn var að verða klár fyrir sumarfrí í byrjun júlí og var settur á flot. Prufutúrinn er gerður í Ísafjarðardjúp og allt í bátnum reynist í lagi. Eftir frí er hafist handa við að græja bátinn fyrir stóra túrinn, það þarf helling af olíu í svona túr þar sem ekki er hægt að fá neitt á Grænlandi þurftum við olíu báðar leiðir og allt það sem við töldum okkur vanta.

Lagt var í hann frá Hafnarfirði til Patreksfjarðar sem var brottfararstaður frá Íslandi til Grænlands með um 2200 lítra af olíu og var tekin prufa á eyðslu þannig að á Patró var bætt við einni tunnu. Fórum við af stað með 2800 lítra, þar af þrjár tunnur á dekki.

Í birtingu um kl. 6:00 þann 24 ágúst var haldið af stað á vit ævintýranna og ísjakanna, veður var gott en var meira horft á eyðslumælinn heldur en hraðamælinn.

Mest var siglt á um 22-23 mílna hraða því þar var hagstæðasta eyðslan, um 3,1-3,4 lítrar á sjómílu, rétt er að fara sparlega með olíuna þar sem við vissum ekki alveg hvað mikið yrði siglt við Grænlandsstrendur. En veður var gott og og aldrei þurftum við að slá af vegna veðurs en svo um áttatíu mílum frá Patró kl 10:00 þá mætum við fyrsta borgarísjakanum sem var nákvæmlega rétt miðað við ískortið frá Landhelgisgæslunni. Það voru ekki nokkur vandræði af jökunum og var þetta belti um 50 sjómílur beggja vegna miðlínu.

Er við nálgumst áfangastað, sem var Kangerdlussuaq, miðja vegu milli Tassilaq og Skoresbysund, er við eigum um 20 mílur í land ákveðum við að fara á litla eyju sunnan við stóra fjörðinn sem heitir Aputiteq og er gömul veðurstöð. Þarna er gott ankerispláss og öruggt skipalægi inni í fallegri vík á eyjunni. Þangað komum við seinnipart mánudagsins og settum okkur á dreka og ákváðum að hita kjötsúpu að íslenskum sið. Eftir það var tekin leggja en leit út eins og það væri svefnmeðal í súpunni, Valdi vaknaði fyrstur úr rotinu og fór og blés upp annan gúmmíbátinn sem var með í för vakti okkur og bauð okkur svefnálfunum í land að skoða byggingar sem daninn skyldi eftir og er nokkur húsakostur á eyjunni. Daginn eftir höfðum við samband við Ísmanninn í gegnum Iridium síma og var hann þá ca hálfnaður norður eftir og sagði hann okkur að koma á móti sér að eyju sem heitir Deceptionö á 67,37N og 32,54W. Fór dagurinn í það að sigla innan um ís, mismikinn, suður til eyjarinnar en þar var karlinn búinn að gefa okkur upp lengd og breidd á öruggu ankeris plássi sem við fórum á. Á staðnum grilluðum við okkur kvöldmat og um leið og við renndum niður síðasta bitanum í kyrrðinni með það eina sem heyrðist í var ísinn þá birtist karlinn útúr ísnum á sínum sex mílum. Áð var um nóttina þarna og það eina sem við urðum varir við var þegar ísinn nuggaðist við kinnunginn á Sómanum, kyrrðin var þvílík að það var eins og maður væri á þurru landi en ísinn vakti okkur samt öðru hverju

Dagur tvö: Ísmaðurinn ákveður að fara upp að landinu og athuga með ísbjörn, og þar sem við erum búnir að fá nóg af ís að sinni þá ákveðum við að fara suður fyrir eyjuna og síðan beint á haf út til að vera sem fyrst lausir við ísinn, en það var öðru nær, það eina sem við höfðum var plotterinn og hann vissi ekkert um ís. Eftir um þriggja tíma siglingu á minnstu ferð, þá var orðinn svo mikill ís að okkur tommaði ekki áfram, allt lokað og útsýni ekkert nema ís, það sá ekki í sjó og ákváðum við að snúa við og voru það nokkur átök. Þurfti að ýta burtu flekum sem voru 2-300 fermetrar til að búa til pláss en til baka var farið og inná slóðina sem við sigldum daginn áður, gekk það nokkuð vel og síðan er við nálgumst ísröndina fer að verða mun meira af sel liggjandi á jökunum, en þetta tók allan daginn að baksast inni í ísnum. Síðan er við komumst út þá var sett á 25 mílur í norður í áttina að Kangerdlussuaq þangað komum við um sex leitið og fórum inní Amdrup fjörð sem var fullur af ís og vorum við þar á reki með ísnum í nokkra tíma og biðum eftir Ísmanninum.

Um kvöldið héldum við matarveislu, það var karrýkjúklingurinn hans Valda sem rann létt niður. Síðar um kvöldið fórum við á nes sem heitir Baknes og báturinn bundinn þvert í vík en er þar gott legupláss. Þarna var ein fjögurra manna fjölskylda frá Sermiligaq, hjón með 8-9 ára strák og ársgamalt barn. Þarna bjuggu þau í tjaldi í mánuð við veiðar. Daginn eftir tókum við upp allar græjurnar sem voru tveir gúmmíbátar einn Zodiac sem Valdi á og einn Maxxon sem ég á með 15 hp fjórgengis Selva mótor. Valdi var með 15 hp tvígengis Selva mótor. Fórum við í túr um Kangerdlussuaq og fórum meðal annars í búðir sem Kanadamenn eru með og eru að leita að gulli og platínu en þar eru 23 menn.

Eftir um klukkutíma siglingu á 16 mílum þá heyrum við í Ísmanninum á VHF stöðinni að kalla eftir aðstoð, hann fékk náhvalsnet í skrúfuna og er stopp. Við lítum í kringum okkur og fáum staðsetningu á karlinum í lengd og breidd, hann er hinumegin í firðinum og við lítum upp, þetta er ekki meira en svona míla segjum við og leggjum af stað, en það tommaði ekki að fjallinu svo við skoðum málið í GPS og þá kemur í ljós að það eru 5 sjómílur í kappann, fjöllin eru svo há að það er allt fjarlægðaskyn brenglað, við náum þó til karlsins og við skoðun kemur í ljós að það er allt fast í skrúfunni, og báturinn stopp þannig að hann var tekinn í tog af Maxxon tuðru með 15 hp Selva mótor, Valdi settist á þóftuna og vafði utan um sig kaðlinum einn hring og hélt fast, ég var aftast og hélt líka í spottann og fékk stýringu en þá var ekkert mál að halda stefnu og náðum við um 3 mílna ferð svona, það hefur sjálfsagt verið skondið að sjá okkur bakkabræður við þessar björgunaraðgerðir. Báturinn var settur uppí kletta og hnífur teipaður á endan á hvalaskutli og Ásbjörn fór aftur fyrir bátinn og skar úr en við hinir lágum frammá til að létta á bátnum, þeir léttustu unnu þetta verk þar sem þörf var á ballestinni frammá og fór allt vel að lokum.

Um kvöldið er spjallað við fangara og þeir gefa okkur Maddaq og þurrkað Náhvalskjöt og við sláum upp veislu á móti þar sem við bjóðum uppá tvíreykt lambalæri, harðfisk, steinbít frá Tálknafirði og þorsk úr Hafnarfirði. Hann var étinn með Færeysku Grindhvalaspiki og bragðaðist vel. Einnig var þurrkuð grind en okkur sýndist að Grænlendingunum líkaði best við harðfiskinn og virtist okkur steinbíturinn vera vinsælastur.

Föstudaginn 27/08 vöknum við hávaða læti er Ísmaðurinn kemur yfir og segir þrjú dauðyfli í Sómanum (hann vaknaði korteri á undan okkur ). Hann heldur inn í fjörð til að leggja net fyrir náhval og við ákveðum að sigla um fjörðinn Kangerdlussuaq á gúmmíbátunum, það var skemmtilegt að ralla á milli jakanna á 15-16 sjómílum en kalt var það, við stefnum út fjörðinn og erum að fara í það sem kallað er yfirgefna þorpið. Þorpið er vel varið af eyju með mjóum þremur sundum að því, þannig að það kemur ekki ís þar inn nema smáís. Kofarninir þarna eru hrörlegir með afbrigðum og ruslið og draslið er ofboðslegt en það sem verst er spikið sem skilið er eftir og liggur þarna um allt, pestin ef ægileg. Eftir þennan ævintýradag er farið í átt til Ísmannsins innar í firðinum á 68,16N og 32,03W þar eru fyrir Ísmaðurinn og Grænlenskir fangarar. Það var mikill kuldi þar sem við vorum nærri jöklinum.

Á laugardeginum var farið í að leggja net fyrir náhval, en það skilaði ekki árangri enda er þetta bara veiði og undir hælin lagt hvort maður fái eitthvað. Um kvöldið förum við yfir í yfirgefna þorpið og köstum ankeri og láum þar um nóttina. Um morguninn setur Ísmaðurinn í gang bátinn sinn og vekur okkur í kyrrðinni og ég stekk út, en þá er kall bara að fara í land svo ég bíð honum gúmmíbátinn og hann þiggur það. Þá rísa þeir félagar Jón og Simmi sem voru hans samferðamenn úr rekkju og vilja með, úr verður túr sem þeir hafa gaman af.

Sunnudagur 29/8 við ákveðum að kveðja þá félaga og fara norðar, en eitt er eftir, að fara í prufutúr með Ísmanninn. Við erum svo heppnir að það er ágætis gjóla á firðinum, ca 4 gömul vindstig þannig að Siggi finnur hvernig báturinn virkar, og á móti eða lensi er þessi Sómi 960 algjörlega frábær og Siggi er staðráðin í því að þetta er báturinn sem virkar á Grænlandi. Hann langaði í Sóma en langar núna helmingi meir.

Eftir þetta kveðjum við þá félaga og höldum í norður þar sem fyrsti áfangastaður er Mikisfjörður. Úti fyrir var töluverður ís og einnig í munna fjarðarins en er við komumst inn fyrir haftið þá var nánast enginn ís. Settum við okkur á ankerispláss í ca miðjum firði og fórum þaðan á gúmmíbátunum og lögðum silunganet og fórum í sportferð um fjörðinn. Innst inn var skriðjökull, er við sigldum þar inn var eins og við sigldum inní ísskáp, hitamismunurinn er ca 15 gráður. Síðar var tékkað á netinu en það var ekki neitt í því. Um kvöldið kveiktum við eld út spýtum sem við fundum í fjöruborðinu og notuðum bensín til að kveikja upp.

Mánudagur, var lagt í hann enn norðar norður í Jensenfjörð en hann er mikið til íslaus, í næsta firði við sem heitir Nansenfjörður er allt fullt af ís og var það von okkar að geta séð ísbjörn þar en á leiðinni hlustuð við á veðrið á langbylgjunni og heyrðist okkur vera stormur í aðsigi. Uppúr því var hringt í

Sigga Storm sem var okkur innan handar með veðurfréttir og átti það eftir að reynast vel að hafa aðgang að svona snilling í stormi. Ákveðið var að hverfa frá Grænlandi þó við ættum eftir að hitta Bjössa, en það verður gert í næstu ferð. Báturinn gerður sjóklár allt skálkað og fest sem hægt var og lagt í hann fyrstu 60 sjómílurnar af rúmlega 200, vor í lagi var að vaxa norðan en við vorum með það á hlið þannig að það var vandalaust að sigla 22 mílur. Er við nálgumst miðlínu þá fór að versna veðrið og snúa sér í suðaustan semsagt beint á móti það hægir verulega á okkur og er nú haldin ráðstefna í Sómanum hvað er til ráða, fara aftur til baka finna sér skjól þar sunnanvið eitthvert fjallið og bíða af, því að við vissum að á Grænlandi var komið norðan 25 m/sek eða slefa okkur á hlið suður og láta veðrið slota eða í norður. Úr var að við hringdum í Sigga og hann gaf okkur þær upplýsingar sem við þurftum, það var N 25 m í Grænlandi, þar sem við vorum

SA 18-20 hvassari sunnar og frekar hægari norðar, átti að hægja um nóttina og hvessa svo aftur þegar liði á daginn (en þá ætluðum við að vera komnir á Patró)

Þannig að það var ekki margt í stöðunni og við settum á stefnu og okkur tommaði alltaf áfram 4-6 mílur þannig að meðan við gátum það þá ákváðum við að það væri réttast, að halda stefnu meðan við fórum áfram.

Það gaf stanslaust yfir Sómann og þurrkurnar fengu heldur betur að finna til tevatnsins. Um nóttina í kolamyrkri átti að lægja en það var ekki með nokkru móti að við finndum fyrir því alla nóttina var hlammað þetta á 4-6 mílum ca 900- 1000 snúningum sem venjulega gefa ca 10 mílur en þegar mönnum varð brátt í brók þá var ekki um annað ræða að snúa undan, og á samkúpluðu sem eru 5 mílur tryllti hann 11-12 mílur undan veðrinu, en það var ekki fyrr en um hádegi á þriðjudeginum sem aðeins lægði og við gátum farið 10-12 og er við áttum um 30 sjómílur í Patreksfjörðinn þá hringdum við í Lögregluna á Patró til að láta þá vita að við værum að koma til að tolla okkur inn, þá var svarið en það er “kolvitlaust veður” ég sagðist vita allt um það.

Um 4 vorum við komnir í Patreksfjörðinn og þá tók á móti okkur kröpp fjarðarbáran okkur fannst við vera búnir að hristast nóg þannig að það var unnið í flöpsunum báturinn flapsaður niður og Volvoinn settur í botn (eða næstum) og ruslast inn fjörðinn á 27 mílum og beint inní höfn. Vorum við mikið ánægðir þegar við stigum á land og fórum í mat til mömmu Ásbjörns, þar var lambalæri á borðum og þegar það var að verða búið þá kom gamla með hangikjöt sem við héldum að væri eftirréttur en svo komu bláber og rjómi síðan komu pönnukökur og kaffi. Það leit út fyrir að gamla konan héldi það að við hefðum ekki fengið matarbita í Grænlandi.

Smellið hér til að skoða myndir frá ferðinni..
 

Kistumel 20 - 116 Reykjavik - Sími 560-7960 - sala@vikingbatar.is

Xodus ehf